144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um þetta. Hún tæpir þarna á mörgum mikilvægum spursmálum og sjónarmiðum. Ég kom aðeins inn á það í ræðu minni að þetta mál snýst ekkert um það hvort við viljum flytja störf út á land eða ekki. Stundum er reyndar verið að flytja stofnanir af landsbyggðinni og til Reykjavíkur. Þetta snýst eiginlega ekkert um þau spursmál heldur bara hvernig það er gert.

Það er gríðarlega mikilvægt að skoða heildarmyndina, hvert er heildarplanið. Það hefur verið bent á það með Akureyri að á sama tíma og ákveðið var að Fiskistofa færi þangað — jú, það voru þessi þrjú störf hjá Isavia, en það voru líka störf hjá Hafrannsóknastofnun og Matís sem voru að fara þaðan á sama tíma. Væri ekki skynsamlegra að skoða heildarmyndina í þessu öllu saman?

Gerð hefur verið ágæt skýrsla um flutning Fiskistofu til Akureyrar þar sem lagt er til að það verði gert á löngum tíma. Akureyri er sjávarútvegsbær og það er öflug sjávarútvegsdeild við Háskólann á Akureyri. Það eru alveg augljósar röksemdir fyrir hendi að Fiskistofa verði þar einhvern tímann í framtíðinni og að unnið verði að því, að starfsmannaveltan verði til dæmis notuð til að koma stofnuninni þangað.

Hér ákváðu menn bara og gáfu yfirlýsingu um það á einhverjum fundi — munnlega yfirlýsingu, höfðu ekki einu sinni samráð við stofnunina sjálfa og starfsmennina þar, þá sem þar ráða ríkjum — að þeir vildu flytja stofnunina til Akureyrar. Þetta er hluti af byggðastefnu sem hefur verið ákveðin í rassvasanum á Framsóknarflokknum. Þetta er engan veginn boðlegt. Mér finnst þetta ömurlegt. Mér finnst mjög skynsamlegt að reyna að dreifa störfum um landið. Það er alveg fáránlegt að við ætlum að fara að setja það mikilvæga verkefni undir hattinn á svona ömurlegu opnu heimildarákvæði þar sem ráðherra getur ákveðið þetta og algjörlega (Forseti hringir.) án rökstuðnings.