144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem er þó jákvætt við þessa umræðu er það að við erum farin að ræða aðrar leiðir til að reyna að fjölga opinberum störfum um land allt, svo að maður reyni nú að horfa á bjartar hliðar í þeim flumbrugangi sem mér finnst einkenna þessar hugmyndir um flutning Fiskistofu.

Mér finnst áhugavert að skoða hvort Stjórnarráðið ætti ekki í auknum mæli að fara að taka upp starfshætti eins og Umhverfisstofnun hefur til dæmis tileinkað sér. Umhverfisstofnun er með starfsstöðvar á nokkrum stöðum um landið og þegar auglýst er eftir starfsfólki þá er það tekið fram að það geti ráðið því hjá hvaða starfsstöð það starfar, sama hvert starfið er. Mér fyndist það vera eitthvað sem við ættum að skoða fyrir hið opinbera kerfi í heild sinni og móta þannig heildstæða stefnu með markmiðum sem menn geta unnið að í stað þess að stunda slík vinnubrögð, þ.e. að taka þessi (Forseti hringir.) störf, flytja þau hingað, á meðan störf eru að leka frá sama stað í hina áttina án umræðu.