144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:05]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru mörg ágæt dæmi um það hvernig hefur tekist að fjölga störfum á landsbyggðinni og viðhalda þeim. Skattstjóri hefur til dæmis staðið sig með eindæmum vel í því verkefni, var með sérhæfðar starfsstöðvar víða um land, á Akranesi, í Vestmannaeyjum, hingað og þangað, og fór mjög faglega í það verkefni og í sátt við alla starfsmenn. Það er frábært að heyra ríkisskattstjóra lýsa því ferli öllu saman, hvernig það var gert, og niðurstaðan er góð þjónusta við alla landsmenn og störf úti um allt land. Þetta er vel hægt.

Ég vil beina því til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í umfjöllun sinni um frumvarpið, að hún skrifi inn í þessa grein hvaða sjónarmið eigi að liggja til grundvallar, hvernig eigi að mæta réttindum starfsmanna. Núna er þetta þannig í frumvarpinu að það er sagt í greinargerðinni, (Forseti hringir.) í athugasemdum við greinina, að fjármálaráðherra megi ef hann vilji hugsanlega setja eitthvað á blað niður um þessi atriði. Það er auðvitað ekki nóg.