144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að umræðan um þetta frumvarp, að það sé komið hér inn og hversu umdeilanlegt það er, snúist um rökræðu um vald, hvernig við lítum á vald og hver eigi að vera uppspretta valds og hverjar eigi að vera takmarkanir valds.

Ég bar fram fyrirspurn í gær til hæstv. utanríkisráðherra um skipun sendiherra þar sem ég auglýsti eftir því að settar yrðu í lög einhverjar faglegar kröfur um skipun sendiherra, að við hættum að láta það vera undanþegið auglýsingaskyldu að skipa sendiherra, það þyrfti sem sagt að sækja um stöðuna. Aðrar Norðurlandaþjóðir gera einhvers konar faglegar kröfur og þær eru á blaði, þær eru fyrir hendi og farið eftir þeim við skipun sendiherra. Mér fannst eins og ég og hæstv. ráðherra skildum ekki hvor annan þegar við vorum að tala um þetta. Mér fannst geisla af svörum hans að honum fyndist allt í lagi að ráðherra bara ákvæði þetta, hann fattaði einhvern veginn ekki gagnrýnina á fyrirkomulagið, að það er auðvitað uppspretta spillingar og bitlinga og hvaðeina. Skipun sendiherra (Forseti hringir.) hefur verið gagnrýnd á þeim nótum. Það sama sem getur gerst hér og er að gerast hér. Það er eins og hæstv. ríkisstjórn fatti ekki hvaða kringumstæður hún býr til með þessu, hvers konar gróðrarstíu spillingar, kúgunar og yfirgangs (Forseti hringir.) hún býr til með því að hafa svona opið heimildarákvæði í lögum.