144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar. Í fyrsta lagi: Er þörf á þessari 1. gr.? Í raun og veru nei. Ég er alveg sammála því, þetta þarf ekki. Eins og þetta er í lögum um Stjórnarráðið núna þyrfti bara að koma með þá tillögu sérstaklega til þingsins ef menn vilja flytja stofnanir. Það er í rauninni það sem ég er að biðja um. Vegna þess að maður er að reyna að vera lausnamiðaður og hugsa uppbyggilega og beina uppbyggilegum tillögum til stjórnarmeirihlutans og nefndarinnar sem mun fjalla um málið þá gerði ég það að tillögu minni að breyta t.d. þessari grein og skrifa inn í hana skilyrði fyrir því af hverju á að flytja stofnanir og gera ráðherra skylt að leggja það fram sem þingsályktunartillögu. Það eru tvær umræður. Þannig að það er málamiðlun í því sem ég er að stinga upp á, en rauði þráðurinn er náttúrlega sá að ég gagnrýni að hér eigi að setja inn opna gerræðislega heimild í svona stóru og veigamiklu máli. Ég vona að nefndin og þingheimur muni sjá að það gengur ekki.

Varðandi b-lið 10. gr. og flutning starfsmanna þá hef ég sterka tilhneigingu til að líta á Stjórnarráð Íslands sem einn vinnustað og ég veit að það voru skref stigin á síðasta kjörtímabili með stjórnarráðsfrumvarpinu til þess að reyna að líta á það þannig, það mætti satt að segja svolítilli andstöðu í þingsal þá, og að sveigjanleiki sé fyrir hendi að flytja starfsmenn til. Það hefur líka í för með sér vissan framgangsmáta starfsmanna innan Stjórnarráðsins. Ef þeir standa sig vel geti þeir átt von á því að vera færðir í ábyrgðarmeiri stöðu.

Mér finnst það gild sjónarmið sem rakin eru í greinargerðinni með frumvarpinu varðandi (Forseti hringir.) þá gagnrýni að verið sé að fara á svig við lög um réttindi opinberra starfsmanna og staðan ekki auglýst, að það losnar auðvitað staða annars staðar þegar starfsmaður er fluttur til. (Forseti hringir.) Það er hún sem er þá auglýst. Mér finnst það gilt sjónarmið.