144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:17]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum skýr svör og ég er ánægð að við séum sammála um 1. gr. Ég vona bara að til þess komi ekki að við þurfum að greiða atkvæði um neina málamiðlun. Ég held að við eigum bara að hafa þetta eins og það er í lögunum núna.

Varðandi b-lið 10. gr. þá er ákvæðið víðtækara en svo að það nái bara til Stjórnarráðsins. Kannski hefur þingmaðurinn fallið í sömu gryfju og ég þangað til ég fór eiginlega að kafa ofan í þetta. Það má flytja starfsmann, um afmarkaðan tíma eða varanlega, milli stjórnvalda, enda liggi fyrir samþykki viðkomandi forstöðumanns. Þarna erum við komin út fyrir Stjórnarráðið og ráðuneytin og niður í undirstofnun. Stjórnvald — það er víðtækur skilningur á því, stjórnvöld eru af ýmsum toga.

Nú kann að vera að ég sé að misskilja þetta, en kannski er verið (Forseti hringir.) að vísa í þessi nýju stjórnvöld innan ráðuneytanna. BHM hefur að minnsta kosti miklar áhyggjur af að verið sé í raun að draga máttinn úr jafnræðissjónarmiðum (Forseti hringir.) innan laga um opinbera starfsmenn.