144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni sköruglega ræðu og innihaldsríka. Sérstaklega vil ég þakka henni fyrir umfjöllun um siðareglur og velti því fyrir mér að þegar farið er inn á vef Alþingis og inn á efnisyfirlit og ýtt á S þá koma engar siðareglur upp. Alþingismenn hafa ekki sett sér siðareglur.

Á síðasta kjörtímabili settu hæstv. þáverandi forseti, Ásta R. Jóhannesdóttir, og forsætisnefnd af stað feril til að búa til siðareglur fyrir alþingismenn. Fengnir voru utanaðkomandi aðilar, siðfræðingar og hvað veit ég, til að fara í þá vinnu. Við alþingismenn mættum mörg hér út í Oddfellowhús á fund til að leggja okkar í púkkið. Svo voru lagðar fram siðareglur og þær þóttu ganga allt of langt.

Sérstaklega voru uppi mótmæli í tveimur ákveðnum stjórnmálaflokkum en núverandi hæstv. forseti hefur haft þann metnað að vilja halda þessu starfi áfram og setja þingmönnum siðareglur, að forsætisnefnd samþykki reglur. Við höfum verið með til umfjöllunar í þingflokkunum siðareglur smíðaðar algjörlega í anda siðareglna Evrópuráðsins, sem Evrópuráðið hefur gefið út til viðmiðunar fyrir þing í Evrópu, þjóðþing í Evrópu. Ég veit að í mínum flokki, Samfylkingunni, var fólk sátt við þær reglur, rétt eins og það var sátt við strangari reglurnar sem gengu lengra.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hún að það geti mögulega verið einhver tengsl á milli þess að ekki sé búið að setja siðareglur fyrir alþingismenn og þess að nú vilji hæstv. forsætisráðherra draga úr kröfum um siðareglur í Stjórnarráði?