144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góða ræðu og sérstaklega fyrir það að koma hérna inn á umræðuefni sem ekki hefur verið rætt mikið í þessari umræðu hingað til, nefnilega siðareglur.

Það er víða í þessu frumvarpi þar sem ég rek greinarnar og umfjöllun um þær aftur til umfjöllunar umboðsmanns Alþingis gagnvart hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra í sífellt meira mæli og þar á meðal auðvitað þetta klaufalega fyrirkomulag með siðareglurnar hjá Stjórnarráðinu, að þær hefðu víst ekki verið settar en menn töldu þær þó vera í gildi en samt ekki eða eitthvað. Það virtist enginn vera með þetta á hreinu og ekkert skrýtið að umboðsmaður Alþingis hafi verið hálfringlaður yfir því hvernig hann ætti að takast á við það.

Sömuleiðis þá deili ég gagnrýni hv. þingmanns á að dregið sé úr vægi þessara reglna, sérstaklega með hliðsjón af því að Stjórnarráðið virðist einhvern veginn hafa gefið sér að þær væru enn þá í gildi frá síðustu ríkisstjórn án þess að svo mikið sem lesa þær nógu vel til að átta sig á að svo var ekki, sem er auðvitað klaufalegt svo fastar verði ekki að orði kveðið.

Sömuleiðis þykir mér afleitt að túlkun siðareglna sé í höndum hæstv. forsætisráðherra bara eingöngu vegna þess að hann er hæstv. forsætisráðherra, ekki persónan heldur embættið. Og það að þetta embætti sé í raun og veru í því hlutverki að fella áfellisdóma yfir eigin ríkisstjórn þykir mér afleitt. Ég veit ekki til hvers menn vilja vera að þessu á annað borð ef þeir ætla að hafa þetta þannig. Hins vegar velti ég fyrir mér: Ef við viljum efla siðareglur, þurfa þær eiginlega ekki að hætta að verða siðareglur og verða bara reglur? Ég hef alltaf svolitlar áhyggjur af því að hugtakið siðareglur sé til þess fallið að draga úr eftirfylgni í eðli sínu óháð því hver sér síðan um eftirlitið eða hvað. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmaður hefur um það að segja.