144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:42]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og spurninguna. Ég er reyndar þess þenkjandi að ég held að það sé ágætt að afmarka reglurnar sem siðareglur af því að þá sé hægt að afmarka þessi mál betur. Þá getum við kannski frekar flokkað hegðun, dómgreind og verk ráðherra undir þess konar reglur.

Annað sem mig langar að benda á er að í umræðum á þinginu í gær var hæstv. forsætisráðherra inntur eftir viðbrögðum sínum vegna lekamálsins. Jú, hann sagði að hann mundi bregðast við en að viðbrögð hans mundu felast í því að ræða þetta frumvarp, að viðbrögðin ættu í rauninni að felast í því frumvarpi sem við ræðum hér í dag. Viðbrögð forsætisráðherra landsins við lekamálinu eru því þau að draga úr vægi siðareglna, að hann, einn og óstuddur og sjálfur, sé dómbær á hvað er siðlegt og hvað er boðlegt í störfum ráðherra.

Það eru þá svör forsætisráðherra við lekamálinu. Það er ekki hægt annað en að túlka orð forsætisráðherra í gær sem svo að hér séu svörin komin, að leggja niður samhæfingarnefndina um siðareglur í stjórnkerfinu og fela sjálfum sér öll verkefni sjö manna nefndar sem er óháð og hefur fengið til sín sérhæfða aðila til að meta mál. Forsætisráðherra tekur þessi verkefni að sér einn og óstuddur. Þar höfum við það, þar höfum við svarið. Þar höfum við viðbrögð forsætisráðherra við lekamálinu.