144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er um margt gagnleg umræða, og að mínu mati sérstaklega seinasta ræða hv. þingmanns sem talaði á undan mér og fjallaði um siðareglur. Mig langar sérstaklega að vekja athygli þingheims á tveimur greinum í frumvarpinu, 4. gr. og 10. gr. Í 4. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Í stað orðsins „formleg“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: mikilvæg.“

Þarna er einu orði breytt í 11. gr. laga um Stjórnarráð Íslands þar sem kveðið er á um að halda skuli til haga mikilvægum upplýsingum en ekki formlegum, eins og þar stendur nú þegar. Þegar ég skoða hvaðan þessi grein kemur kemur í ljós að það þótti á sínum tíma of íþyngjandi að hafa hugtakið „mikilvæg“ og var þess vegna ítrekað við meðferð þingsins frá formanni hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem gerði þetta að verkum að þarna ætti að skrá „formleg“ gögn eða hvað það var sem átti að vera formlegt eða mikilvægt. Í bréfi umboðsmanns vegna athugunar hans á samskiptum hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra við háttvirtan þáverandi lögreglustjóra, Stefán Eiríksson, minnist hann á þessa tilteknu grein, 11. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, og að hann hafi óskað eftir gögnum um þessi formlegu samskipti milli fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra og lögreglustjórans. Þessi gögn voru víst ekki til staðar.

Svo kemur hann inn á það að það virðist eitthvað skorta á að menn átti sig á því hjá ráðuneytinu nákvæmlega hvað teljist til formlegra gagna. Þó er minnst á reglur um skráningu gagna, reglur nr. 1200/2013. Ég fæ ekki betur séð en að það sé nokkuð skýrt þar. Þar eru fjögur atriði sem ég ætla sökum tímaskorts að láta eiga sig að telja upp hér, en þar er einnig minnst á að í 2. gr. þeirra reglna, að um skyldu ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands til skráningar mála og upplýsinga gildi jafnframt ákvæði upplýsingalaga og laga um Þjóðskjalasafn Íslands. Þar er átt við 27. gr. upplýsingalaga sem er breytt með 10. gr. frumvarpsins sem hér um ræðir einnig. Þess vegna varðar þetta 4. gr. og a-lið 10. gr. í frumvarpinu sem við hér ræðum.

Því fæ ég ekki betur séð en að hér eigi að láta duga að tala um „mikilvæg“ samskipti en ekki „formleg“ samskipti. Með hliðsjón af því að ekki er komið á hreint hvað átt er við með formlegum samskiptum, og greinargerð frumvarpsins fer inn á það, þrátt fyrir að reglur um skráningu samskipta nr. 1200/2013 virðist fyrir mér nokkuð skýr — ég skil ekki hvað mönnum finnst óskýrt við hana — þykir mér fullbratt miðað við nýlega atburði, nefnilega lekamálið og samskipti hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra við þáverandi háttvirtan lögreglustjóra, að fara út í að breyta þessari skilgreiningu úr formlegu yfir í mikilvæga. Þetta er eitt af þeim atriðum sem mér finnst mikilvægt að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki sérstaklega til umfjöllunar. Þetta er enn einn angi þessa frumvarps sem ég sé að eigi einhvern veginn við lekamálið og það fer að verða hálfóþægilegt að sjá sífellt þessar tengingar. Maður hefði búist við því að breytingar á lögum í kjölfar svo alvarlegs máls sem lekamálsins og hátternis þáverandi hæstv. innanríkisráðherra mundu leiða af sér að menn reyndu að bæta úr því sem er að í verklaginu, í innleiðingu laganna, frekar en því hvernig lögin sjálf eru gerð. Mér finnst ekki góður bragur að breyta lögunum þegar það reynist eitthvert klúður við það síðan að framfylgja þeim þrátt fyrir að ábendingarnar séu í sjálfu sér augljósar, að siðareglurnar hefði átt að staðfesta af ríkisstjórninni, að það hefði átt að fara eftir öðru en pólitískri túlkun hæstv. forsætisráðherra, t.d. til að túlka siðareglur, og sömuleiðis að við skráningu gagna væri einfaldlega útskýrt að það ætti að skrá meira af formlegum gögnum.

Þeir fundir sem um ræðir sem umboðsmaður Alþingis var að leita að upplýsingum um voru um málefni sem voru til umræðu hjá ráðuneytinu samkvæmt hæstv. þáverandi innanríkisráðherra. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér hvers vegna þessi leið var farin. (Forseti hringir.) Nú hef ég ekki tíma fyrir fleira, virðulegi forseti, og lýk máli mínu.