144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:14]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var þannig að hv. þm. Björn Valur Gíslason fékk svör frá öllum ráðuneytum þar sem sagði að ekki stæði til að færa stofnanir út á land og þess vegna veltir maður þessu fyrir sér. Ég held nefnilega að það sé engin tilviljun að þetta komi inn, þetta hafi ekki dottið inn. Þetta hefur örugglega ýtt við mönnum en ég held að það sé hugsunin, það sé tilhneigingin, að draga til sín vald en ekki að koma með málin hér í gegnum þingið. Mér finnst það vera áhyggjuefni.

Ég tek undir það að vissulega er stjórnsýslan hér á höfuðborgarsvæðinu að stærstum hluta en það þýðir ekki að við getum ekki með vönduðum vinnubrögðum horft til ýmissa þátta og búið til heildaráætlun um það hvernig við sjáum þá stjórnsýslu sem við erum með.

Nú kemur fram í frumvarpinu að verið er að skoða hinar ýmsu stjórnsýslustofnanir. En það virðist eingöngu verið að skoða þær með tilliti til þess hvað hægt er að búa til inni í ráðuneytunum, að hægt sé að búa til stjórnsýslueiningar þar og fækka þeim sem eru sjálfstætt starfandi, í staðinn fyrir að hafa hringinn víðari og horfa til þess hvort hægt er að koma einhverju, með plani til lengri tíma, fyrir annars staðar.