144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert sem hv. þingmaður rekur hér. Ég held einmitt að hægt sé að fjalla efnislega um hvort og í hvaða mæli starfsemi einstakra stofnana geti átt heima á landsbyggðinni. Í tilviki Fiskistofu er stór hluti sjávarútvegsins auðvitað úti um allt land og geta verið ágæt efnisrök fyrir því að einstakir hlutar starfsemi Fiskistofu séu utan höfuðborgarsvæðisins.

Eins og hv. þingmaður nefnir varðandi Landhelgisgæsluna eru líka skýr efnisrök fyrir því að nýta þann húsnæðiskost sem er á Keflavíkurflugvelli fyrir flugvélakost Gæslunnar. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er ekki einboðið að við meðferð málsins í nefnd verði farið yfir þessa þætti og reynt að þrengja heimildina þannig að hún verði ekki ótakmörkuð? Og varðandi stofnanir sem hafa til dæmis verið fluttar á grundvelli þessarar heimildir, eiga þær þá að sækja um að vera fluttar aftur til baka á næsta kjörtímabili?