144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:26]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, það væri örugglega rosalega gott. En mér hugnast bara ekki þannig stjórnsýsla og mér hugnast ekki þannig pólitík vegna þess að hún hefur ekkert endilega verið gæfurík í gegnum árin.

Fyrir mér er Ísland eitt og því miður hafa hv. alþingismenn oft reynt hér í ræðustól að etja saman landsbyggð og höfuðborg, sem mér finnst einhver ljótasti pólitíski leikurinn sem er framinn hér. Við Íslendingar erum eitt og við eigum að geta komist að niðurstöðu um það hvort við viljum hafa stofnun hér eða þar.

Hvað varðar Landhelgisgæsluna þá var það mál í umræðu á síðasta þingi. Auðvitað gæti Landhelgisgæslan verið hvar sem er, en af því að Landhelgisgæslan er með hluta af starfsemi sinni uppi á flugvelli og þar er allt til staðar fyrir hana, þá eru rök fyrir því að flytja hana á Suðurnes, og maður hefur líka heyrt að starfsmennirnir séu bara alls ekki á móti þeim flutningi, alveg þveröfugt við Fiskistofu. Það er bara einn sem ætlar að flytja með Fiskistofu og það er fiskistofustjórinn sem kemur sér afar illa fyrir mitt bæjarfélag því hann býr þar, nýbúinn að kaupa sér hús. Það væri auðvitað voða gott að hafa þetta svona, ráðherra gæti sagt: Ég bara færi þetta, en ég vil það ekki, ég kæri mig ekki um slík vinnubrögð. Við eigum að vinna lýðræðislega og leggja alltaf fyrst á borðið almannahagsmuni. Er þetta gott fyrir þjóðfélagið? Er gott fyrir íslenskt samfélag að hafa Landhelgisgæsluna t.d. á Keflavíkurflugvelli? Ég velti því fyrir mér, ekki síst í ljósi umræðu um Vestnorræna ráðið og norðurslóðamál. Hér gæti orðið miðstöð björgunar og leitar og ég sé fyrir mér að Suðurnesin væru alveg kjörin í það. Þar er allt til staðar, flugvöllur og allt. Þannig horfir maður á það, en ég mundi ekki vilja taka þátt í svona stjórnmálum og kjördæmapoti, þótt maður eigi auðvitað að hjálpa sínu kjördæmi.