144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:31]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekkert undarlegt að við séum, í umræðum um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, farin að ræða Fiskistofumálið vegna þess að það er kannski lýsandi dæmi um það hvernig svona heimild ætti ekki að beita og hvernig menn eiga ekki að taka ákvarðanir. Ég á mér þann draum að menn í þessari ríkisstjórn fari að taka ákvarðanir með þeim hætti að þeir komi hér og segi okkur frá því að gerð hafi verið úttekt á því hvar og hvernig ákveðinni starfsemi er best fyrir komið, þess vegna hafi verið tekin ákvörðun um að flytja þessa eða hina stofnunina í X mörgum skrefum þangað sem hún eigi best heima. Það sé ekki þannig að ráðherrann eins og í þessu tilfelli tilkynni þetta bara út í loftið og komist svo að því eftir á að hann hafi ekki til þess lagalegar heimildir. Meira að segja gekk ráðherrann svo langt að hann lofaði fólki því að það fengi greitt sérstaklega fyrir flutninginn umfram það sem ríkið gerir venjulega og lagaheimildir kveða á um, sem skapar fordæmi og mun geta bakað okkur vanda í framtíðinni. Þá skiptir ekki í hvora áttina menn flytja, þ.e. hvort sem það er frá landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið eða eitthvert annað. Allt í þessu máli hefur verið dæmi um það hvernig á alls ekki að gera hlutina. Þess vegna verður sú umræða svo umfangsmikil hér í umfjöllun um þetta frumvarp. Og vegna þess hvernig þetta var gert er ég alfarið á móti því að þessi grein verði samþykkt óbreytt. Ég tel að það væri miklu heillavænlegra að menn settu í lög skýr ákvæði um á hvern hátt ætti að taka svona ákvörðun og hvaða faglegur undanfari þyrfti að hafa átt sér stað til þess að ráðherra gæti lagt fyrir þingið tillögu um að færa stofnanir eins og hér er lagt til.

Það þýðir ekki að ég sé á móti því að við flytjum stofnanir út á land eða til Reykjavíkur frá landsbyggðinni eða hvernig sem er, allra síst er ég á móti því að flytja þær út á land. Ég er orðin mjög leið yfir því hvernig Ísland er að þróast og verða hálfgert borgríki. Ég vil að við leggjum okkur fram og reynum að skapa sátt um að efla byggð um land allt vegna þess að við þurfum á því að halda. Breytingin hefur verið of hröð, það hallar verulega á landsbyggðina og af því höfum við öll áhyggjur. En það að taka eina stofnun eins og Fiskistofu og ætla að færa hana í nafni þess að efla byggð um landið, er ekki leiðin. Það er röng leið, sérstaklega vegna þess, virðulegi forseti, að á sama tíma hafa menn talið upp, ætli þeir séu ekki komnir upp 12, 13, 14 störf sem hafa verið flutt frá Akureyri með einum eða öðrum hætti eða lögð þar niður, frá því að þessi yfirlýsing kom frá hæstv. ráðherra. Það gengur ekki að menn leggi til svona áhrifamiklar breytingar — þegar ég segi áhrifamiklar þá þýðir það að menn ætla að flytja stofnun á svo flausturslegan hátt að fæstir starfsmennirnir munu fylgja með. Þá þarf að eyða miklum tíma og fjármunum í að byggja upp þekkinguna þar innan húss aftur, í stað þess að menn hefðu gert þetta öðruvísi, til dæmis fjölgað hægt og rólega á starfsstöðinni á Akureyri, gert það með eðlilegri endurnýjun á mannafla.

Þetta er alls ekki leiðin, sérstaklega vegna þess að það eru mótsagnir í öllu málinu. Á meðan þessi umræða á sér stað og við eyðum orku okkar í hana þá flæða störfin frá Akureyri í bæinn. Það er engin heil brú í þessu, engin heildstæð stefna.

Svo verð ég líka að nefna að lokum, virðulegi forseti, því tími minn flýgur, að ég er algjörlega á móti breytingunni í 8. gr. frumvarpsins, sem kveður á um að forsætisráðuneytið eitt eigi að vera ráðgefandi stjórnvöldum um túlkun siðareglna og fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins. Mér finnst það algjör afturför. Þetta verður ekki til þess að það skapist traust og trúverðugleiki í kringum þetta ferli. Það er miklu eðlilegra að hafa nefnd þar sem fleiri koma að túlkun siðareglna ef menn ætla að hafa (Forseti hringir.) trúverðuga stefnu og vera með trúverðugar siðareglur.