144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú á nefndin eftir að fjalla ítarlega um frumvarpið, trúi ég, og skoða það með gleraugum rannsóknarnefndar Alþingis sem fjallaði í skýrslu sinni um stjórnsýsluna og hvernig litlar stofnanir og lítil ráðuneyti gætu hugsanlega veikt stjórnsýsluna þannig að ekki væri hægt að krefjast þeirra verkefna af þeim sem nauðsynlegt er að sinna.

Mér virðist að í 6. gr. frumvarpsins sé verið að tala um að styrkja megi stjórnsýsluna með því að búa til stofnun innan ráðuneytisins. Hv. þingmaður er í allsherjar- og menntamálanefnd sem fjallar um frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um að sameina tvær stofnanir, Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun, og einnig á að færa stóran hluta af menntasviði ráðuneytisins úr menntamálaráðuneytinu í sérstaka stofnun sem á að vera með frumkvæðisskyldu og upplýsingaskyldu og heyra beint undir ráðherra.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig telur hún að sú aðgerð, sem hæstv. menntamálaráðherra telur að muni bæta stjórnsýsluna á því sviði þar sem í rauninni er verið að veikja menntamálaráðuneytið eða minnka það, samræmist þessari reglu og markmiðum 6. gr. frumvarpsins?