144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg þetta skipulag en ég vænti þess að þegar málið kemur hér til 2. umr. verði betur farið yfir það með dæmum sem og aðrar breytingar sem fyrirhugaðar eru í ráðuneytum, eins og til dæmis í menntamálaráðuneytinu. Ég vænti þess að þá skýrist þetta allt saman og að samfellan í þeim breytingum sem hæstv. ríkisstjórn vill gera á Stjórnarráðinu gangi upp.

Ég missti af fyrri ræðu hv. þingmanns. Ég geri ráð fyrir að hún hafi rætt 1. gr. sem valdið hefur hvað mestum deilum. Hv. þingmaður er úr Norðausturkjördæmi sem er nú að taka við starfsemi Fiskistofu. Öll stjórnsýslan í kringum þær breytingar hefur verið gagnrýnd. Nú er verið að opna fyrir það. Við þurfum að ræða í þessum þingsal um flutning Fiskistofu, en ef þessi breyting verður gerð, ef 1. gr. verður að lögum mun þess ekki þurfa, þá fær ráðherrann aukið vald í sínar hendur.

Auðvitað kemur flutningur Fiskistofu vel við kjördæmi hv. þingmanns, en telur hún að þetta sé almennt góð regla sem henti lítilli þjóð sem þarf nauðsynlega á formfestu og reglufestu að halda?