144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands.

Það fyrsta sem slær mann við lestur þessa frumvarps er hversu áberandi það vald er, meira að segja í mínum augum, en ég er nú hálfgerður nýgræðingur hér á Alþingi, sem verið er að flytja til ráðherra, og þá sérstaklega forsætisráðherra, á kostnað faglegra, vandaðra og vel undirbúinna vinnubragða. Ég held að hluti af ástæðunni fyrir því hversu fáir landsmenn hafa traust og trú á stjórnvöldum sé einmitt skortur á faglegum vinnubrögðum og sá mikli tími fer stundum í það að ræða málsmeðferð hér á Alþingi í stað þess að takast á um hinar stóru pólitísku átakalínur sem ég hefði haldið að við ættum að ræða hér og deila um, því að það er alveg eðlilegt að við höfum ólíkar pólitískar áherslur og að við tökumst á um ólíka pólitíska hugmyndafræði. Að mínu mati verðum við að koma okkur saman um þær leikreglur, viðmið og vinnubrögð sem við setjum okkur um það hvernig við tökumst á um pólitíkina. Mér finnst við ekki vera á alveg nógu góðri leið þar.

Líkt og margir hv. þingmenn sem tekið hafa til máls í umræðunni á undan mér er það fyrsta sem ég staldra við, kannski eðli málsins samkvæmt, 1. gr. í frumvarpinu, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum.“

Líkt og hjá fleiri hv. þingmönnum er flutningurinn á Fiskistofu það fyrsta sem kemur upp í huga mér. Almennt vil ég segja að mér finnst sjálfsagt mál að skoða hvort skynsamlegt sé að flytja störf eða stofnanir frá Reykjavík. Það hlýtur eiginlega að vera eitt af því sem öðru hvoru þarf að huga að, þ.e. hvernig störfum og stofnunum er dreift um landið. En í stað þess að demba sér bara í það að flytja heila stofnun án nokkurs undirbúnings og án þess að fyrir því sé nauðsynleg stoð í lögum, því að það er í rauninni lagastoðin sem kemur með þessu frumvarpi, hefði ég haldið að heillavænlegra væri að gera áætlun til einhverrar framtíðar, heildstæða áætlun, og vinna svo samkvæmt henni.

Líkt og fram hefur komið í umræðunum í dag virðist það ekki vera stefna núverandi stjórnvalda að flytja stofnanir út á land, alla vega ekki ef marka má svör frá öllum ráðuneytum við fyrirspurn Björns Vals Gíslasonar, hv. varaþingmanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Þetta var það sem ég vildi segja um 1. gr.

Önnur grein sem ég staldraði við og varð ansi hugsi yfir er 4. gr., sem lætur reyndar mjög lítið yfir sér og er mjög stutt, rétt rúmlega hálf lína eða svo. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í stað orðsins „formleg“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: mikilvæg.“

Í athugasemdum við einstakar greinar þessa frumvarps, um breytingu á lögum um Stjórnarráðið, er fjallað um 4. gr., þ.e. um að stað orðsins „formleg“ eigi að koma orðið „mikilvæg“. En þá spyr ég: Af hverju ekki formleg samskipti? Hvað annað? Við erum hér að fjalla um Stjórnarráðið. Hljóta ekki samskipti þar að eiga að vera formleg? Í umfjöllun um 4. gr. segir einnig, með leyfi forseta:

„Ljóst má vera að áherslan á form samskiptanna fremur en efni þeirra felur í sér alvarlegan ágalla. Þannig kunna mikilvægar upplýsingar allt eins að koma fram í óformlegum samskiptum sem mikilvægt er að skrá ekki síður en upplýsingar sem fram koma í samskiptum sem formleg teljast.“

Það er alveg rétt að auðvitað geta mikilvægar upplýsingar komið fram á alls konar stöðum, þær geta þess vegna komið fram í spjalli á kaffistofu en ekki einungis á formlegum vettvangi. En þar sem við erum að tala um Stjórnarráðið og mikilvægustu stofnanirnar í samfélagi okkar, er þá ekki nauðsynlegt að ef um mikilvæg atriði er að ræða séu þau tekin upp með formlegum hætti og skráð með viðeigandi hætti? Ef breyta á þessu eins og lagt er til með þessum lögum, úr formlegum samskiptum í mikilvæg, þá hlýtur maður að spyrja: Hver er það sem á að meta það hvenær eitthvað er mikilvægt og hvaða viðmið á að nota til þess að meta mikilvægi samskipta?

Eins og fram kom í máli hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar fyrr í dag þá liggja fyrir verklagsreglur um það hvað telja eigi til formlegra samskipta. Mér hefur því miður ekki gefist tóm til þess að kynna mér þær reglur þar sem ég hef verið bundin hérna í þingsal, en í því ljósi að fyrir liggur hvernig skilgreina eigi formleg samskipti finnst mér miklu nær að hafa slíka skilgreiningu en ekki að taka upp mun loðnara orðalag vegna þess að það sem einum kann að þykja mikilvægt er ekki víst að einhverjum öðrum þyki jafn mikilvægt.

Að lokum langar mig að hoppa yfir í 8. gr. frumvarpsins. Hún hljómar svona, með leyfi forseta:

„25. gr. laganna orðast svo:

Forsætisráðuneytið gefur stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað, stendur fyrir fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins og fylgist með að þær nái tilgangi sínum.“

Hér er í raun verið að gera ansi mikla breytingu frá því sem nú er í núgildandi lögum þar sem sjö manna samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna er skipt út fyrir forsætisráðuneytið. Í samhæfingarnefndinni skulu tveir stjórnarmenn valdir á grundvelli sérþekkingar sinnar á stjórnsýslu og siðferðilegum efnum. Þeim á sem sagt að skipta út fyrir forsætisráðuneytið til þess að gefa ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað.

Mér finnst það vera ansi mikil veiking á því hvernig við ætlum að nota siðareglur, því að hversu gott eða næmt sem siðferðismat sitjandi forsætisráðherra á hverjum tíma er, finnst okkur samt eðlilegt að túlkunarvaldið eigi að liggja hjá honum? Hann er náttúrlega, svo ég leyfi mér að sletta, stór „player“, hann er mikilvægur aðili í öllu því sem gerist. Á hann þá að hafa sjálfdæmi í eigin málum? Það eykur í það minnsta trú mína á að hér verði alvöru siðferðilegum viðmiðum fylgt eftir ef faglega skipuð nefnd hefur með þessi mál að gera.

Auðvitað eru nokkrar fleiri greinar í þessu frumvarpi en þær hníga allar í sömu átt: Dregið er úr vægi faglegra vinnubragða en ráðherraræði er aukið. Líkt og ég sagði í upphafi þá held ég að hluti af því litla trausti og þeirri litlu trú sem almenningur hefur á stjórnvöldum sé einmitt til kominn vegna þess að okkur skortir svo fagleg vinnubrögð. Þau verða ekki aukin með því að færa allt valdið til forsætisráðuneytisins, þvert á móti.

Ég held að ég ljúki máli mínu, þ.e. raddböndin hafa í það minnsta ákveðið að ég ljúki máli mínu hér, en ég vil að lokum segja að ég tel þetta frumvarp alls ekki til þess fallið að bæta lögin um Stjórnarráð Íslands heldur þvert á móti gera þau veikari.