144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er aðallega komin til að taka undir með hv. þingmanni og benda á að í þessari umræðu allri hefur athygli okkar beinst mjög að 1. gr. Hér er um stórvægilegar breytingar að ræða og eins og hv. þingmaður nefndi þá lætur 4. gr. ekki mikið yfir sér, að breyta formlegu yfir í mikilvægt, en það er einmitt, held ég, ein ástæðan fyrir lögum um Stjórnarráð Íslands, þ.e. að formið sé í lagi. Eins og hv. þingmaður sagði: Hver á að dæma hvað er mikilvægt og ef eitthvað er mikilvægt þarf að taka það formlega upp til þess að það komist til skila? Það er nú einmitt til þess sem stjórnarráðslögin eru, tel ég vera.

Í annan stað nefndi þingmaðurinn 8. gr. Lítið sem ekkert var fjallað um hana þegar við ræddum þetta hér fyrir helgina en meira hefur verið rætt um hana í dag. (Gripið fram í.) Ég tek aftur undir það með þingmanninum að þar þykir mér nokkuð frjálslega farið með þegar embættismenn í forsætisráðuneytinu eiga helst að dæma, að manni skilst, í siðareglum. Ég ætla að spyrja þingmanninn hvort henni finnist það rök fyrir því að slá nefnd eins og þessa af, eins og mér sýnist vera í þessu, að það hafi ekki svo mörgum málum verið beint til hennar. Nefndin þarf ekki að vera óþörf þó að málin séu ekki (Forseti hringir.) mörg. Málin sem hún fær til umfjöllunar geta verið fá en mjög mikilvæg.