144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:48]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir góð og efnisrík svör sem hann gaf í ræðu sinni. Áhyggjuefni mitt af þessu frumvarpi er fyrst og fremst 1. gr. þess með hinni opnu og takmarkalausu heimild ráðherra til að ákveða flutning stofnana. Ég hef í máli mínu tekið dæmi af Fiskistofu vegna þess að hún er í Hafnarfirði, vegna þess að hún var flutt til Hafnarfjarðar af því að þáverandi ráðherra var Hafnfirðingur. Nú eru sömu flokkar í ríkisstjórn og hafa markað aðra stefnu og þá er lagt til að höfuðstöðvarnar flytjist, eða stór hluti starfseminnar í það minnsta, til Akureyrar. Stofnunin er þá algjörlega berskjölduð við þetta opna lagaákvæði fyrir því að næsti ráðherra sem gæti tekið við eftir tvö ár eða þrjú ár og væri frá Selfossi flytti hana þangað.

Ég velti því þess vegna upp við hæstv. ráðherra: Eru ekki efnisrök fyrir því að heimildin til flutnings sé takmarkaðri en gert er ráð fyrir þarna þannig að það séu einhverjar hömlur á því, (Forseti hringir.) þótt ekki væri nema að stofnun verði ekki flutt nema einu sinni á hverjum 15 árum eða eitthvað slíkt?