144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna ummælum hæstv. forsætisráðherra og vil halda áfram að reyna að feta í einhverja samkomulagsátt í þessum málum. Ég held að hægt hefði verið að finna farsælli farveg fyrir hugmyndirnar um flutning Fiskistofu ef menn hefðu sest niður og ákveðið að gera þetta á einhverju árabili og mér finnst hæstv. forsætisráðherra vera að tala í áttina að einhverju slíku. Er ekki eðlilegt að reyna að útfæra flutningsheimild með afmarkaðri hætti þannig að þetta sé ekki einhvers konar ógn sem vofi yfir hverri einustu stofnun á hvaða einasta tíma, heldur að menn búi til einhvern farveg um það hvernig við setjumst saman yfir það verkefni að flytja einstaka hluta starfsemi stofnana, eins og hæstv. forsætisráðherra rekur í tilviki Fiskistofu, út um land ef til þess eru efnisrök og komum þannig líka í veg fyrir óvissu um þann flutning þegar skipt er um ríkisstjórn og þegar ný pólitísk viðhorf blása?