144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:54]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég reyndi nú að minna á það í upphafi máls míns að þetta væri ekki umræða um flutning Fiskistofu, en ég skal þó bregðast við athugasemdum hv. þingmanns sem heldur því fram að gagnrýnin snúist eingöngu um aðferðafræðina. Með öðrum orðum, farið er gegn þessu mikilvæga máli, sem er liður í því að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, vegna aðferðafræðinnar, en sú gagnrýni byggist ekki á þeirri aðferðafræði sem var beitt heldur þeirri aðferðafræði sem haldið hefur verið fram að hafi verið beitt. Það hefur aldrei staðið til að flytja stofnunina í heilu lagi frá Hafnarfirði á einum degi með manni og mús, eins og einhvern tíma var haldið fram hér í þessum sal. Það hefur ávallt staðið til að vinna að framkvæmdinni með starfsmönnum til að tryggja það að hún gæti farið fram á þann hátt að það skaðaði starfsmenn ekki (Forseti hringir.) heldur yrði fyrst og fremst tækifæri fyrir þá.