144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:02]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru tóm undanbrögð. Það er verið að reyna að standa eins faglega að hlutunum og kostur er. Svo að ég komi aftur að fyrstu athugasemd hv. þingmanns, spurningunni um það hvort starfsmenn Fiskistofu hafi fengið að vita að þessi flutningur stæði til áður en tilkynnt var um það norður í landi, þá er svarið já. Kallaður var saman sérstakur starfsmannafundur þar sem farið var yfir þetta með starfsmönnunum þannig að þeir fengju fyrstir að vita hvað stæði til. Málið var hins vegar komið í fréttir út af þessum fundi fáeinum mínútum eftir að tilkynnt var um þetta á fundi með starfsmönnunum.

Hvað varðar fagleg vinnubrögð þá hlýtur aðalatriðið, ef við erum þrátt fyrir allt sammála um að Fiskistofa eigi vel heima á Akureyri, að snúast um það hvernig menn vinna framkvæmdina (Forseti hringir.) sem best. Hæstv. sjávarútvegsráðherra og ráðuneytið allt hefur svo sannarlega verið boðið og búið til að vinna að því að þetta gangi sem best fyrir sig, (Forseti hringir.) enda var lagt upp með það að starfsmenn kæmu að verkefninu frá byrjun.