144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hreinlegra ringlaðri en áður. Ég skil lokaorð hæstv. forsætisráðherra þannig að það þurfi þá heimild sem er í þessu frumvarpi til þess að hægt sé að flytja Fiskistofu til Akureyrar, sem má vel vera að sé góð og blessuð ráðstöfun, án frumvarps, að það sé mögulegt án þess að leggja það fram sem frumvarp á hinu háa Alþingi. Þannig skil ég hæstv. ráðherra.

Nú hef ég talaði íslensku í hartnær 35 ár og finnst svolítið skrýtið, það er kannski mér að kenna, að ég skil þetta ekki. Hvernig í ósköpunum getur það verið að þessa lagaheimild þurfi til að færa Fiskistofu en samt hváir hæstv. ráðherra þegar við ræðum flutning Fiskistofu? Ég tek enga efnislega afstöðu til flutningsins sjálf, en þegar hæstv. ráðherra lætur eins og flutningur Fiskistofu hafi ekkert með málið að gera skil ég ekki eitt aukatekið orð í lokasetningu hæstv. ráðherra. Kannski hann geti hjálpað mér að skilja.