144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

meðferð sakamála og lögreglulög.

430. mál
[19:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með þeim fyrirvara að ég hef ekki kafað jafn djúpt í lögin og ég hyggst gera áður en hv. allsherjar- og menntamálanefnd tekur það til umfjöllunar get ég tekið undir það að hér er væntanlega verið að betrumbæta það kerfi sem við höfum. Eins og hæstv. innanríkisráðherra veit er mér mjög umhugað um þessi mál og tek það til greina að við hæstv. innanríkisráðherra erum einfaldlega ósammála um umgjörðina á bak við þetta. Það er gott og blessað, við komum til með að ræða þetta betur í nefnd en fyrir utan kostnað í peningum langar mig að heyra, ef hæstv. innanríkisráðherra hefur einhverju við það að bæta, hvort og hvað þá standi beinlínis í vegi fyrir því að hafa algjörlega óháða stofnun sem væri eingöngu í eftirliti með lögreglu.