144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

meðferð sakamála og lögreglulög.

430. mál
[19:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur þakka hv. þingmanni fyrir að halda manni við efnið í þessum mikilvægu málum sem varða öryggi borganna. Ég veit ekki til þess að það hafi verið skoðað sérstaklega hvort það sé betra að einhver annar aðili sjái um það en sú umgjörð sem við höfum búið til í skipulagi á ákæruvaldsstarfsemi. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að það hafi ekki verið skoðað með þeim hætti sem þingmaðurinn nefnir hér.

Þetta frumvarp er mjög mikilvægt. Mörg efnisatriði þarfnast þess að menn setji sig inn í þau og ég veit að hv. þingmaður og hv. allsherjar- og menntamálanefnd munu gera það og vanda sig við það. Ráðuneytið og ég erum að sjálfsögðu reiðubúin að koma að því eins mikið og hægt er, en ég vil að lokum aftur leggja þunga áherslu á mikilvægi þess að þetta mál fái góða umfjöllun og að við tryggjum réttaröryggi í landinu núna þegar þessar breytingar, nái þær í gegn, verða að fyrirkomulagi ákæruvaldsmála.