144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni þingmálaskrána eins og hún hefur verið bæði nú í haust og svo það sem af er þessu þingi. Það hafa borist mörg mál, meðal annars frá Vinstri hreyfingunni — grænu framboði; ég held að það séu 17 til 19 mál, 20 mál með þessum nýjustu sem við höfum lagt hér fram, sem ekki hefur verið hægt að mæla fyrir.

Þegar við hugsum um það að fyrir jólin var sáralítið á dagskrá nema fjárlögin og fundir voru óvenjustuttir dag eftir dag, fundarfall í nefndum o.s.frv., þá spyr maður: Hvers vegna var ekki hægt að fá að mæla fyrir ýmsum málum, m.a. félagslegri aðstoð, skerðingarhlutfalli, textun myndefnis í fjölmiðlum, heilsugæslu í framhaldsskólum, húsaleigubótum fyrir námsmenn, lögbindingu lágmarkslauna, áhættumati vegna ferðamennsku og könnun á réttarstöðu með tilliti til gjaldtöku við náttúruvætti. Við lögðum svo á dögunum fram þingsályktunartillögur um stofnun Landsiðaráðs og undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma.

Það var ekki vegna þess að stjórnarandstaðan væri að tefja mál fyrir áramótin að ekki var hægt að mæla fyrir þeim þess vegna, svo mikið er víst. Mér fannst hæstv. forseti bera blak af ráðuneytum og ráðherrum í lokaávarpi sínu hér fyrir jólin, þar sem skriflegar fyrirspurnir hefðu verið svo margar að það gæti illa tekist að svara þeim. Það ætti að vera gleðiefni að þingmenn séu duglegir við að spyrja og vilji fá svör í hinum ýmsu málum, og kannski er það leiðin að vera með fleiri fyrirspurnir þegar mál fást ekki lögð fram.

Kannski erum við líka að horfa fram á þá viðbótarskerðingu sem kom hér fram í fjárlögum á lokametrunum vegna fjárlaganna ársins 2014 þar sem ráðuneytin þurftu að skera niður um (Forseti hringir.) 5% til viðbótar og fækka þar með fólki, þannig að (Forseti hringir.) þeim tekst ekki að sinna því sem hér er lagt fram af hálfu þingmanna.