144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Til hamingju með daginn, Íslendingar. Mikið hefur verið rætt um traust, virðingu og tiltrú almennings á Alþingi. Einnig hefur mörgum verið tíðrætt um mikilvægi þess að hafa allt uppi á borðum, menn þurfi að fara eftir skýrum leikreglum og viðhafa vinnulag sem eykur gegnsæi mála sem unnið er með.

Hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi viðskipta- og efnahagsráðherra, ræddi einmitt í gær um mikilvægi gagnsæis og almennra leikreglna við afnám hafta og vísaði til tortryggni vegna fyrri einkavæðingar bankanna. Ég get tekið undir að gagnsæi og almennar leikreglur þurfa að gilda um svo stór málefni eins og einkavæðingu bankakerfisins, enda er það í samræmi við þær tillögur sem við framsóknarmenn lögðum fram í tvígang á Alþingi á síðasta kjörtímabili um að rannsaka þyrfti seinni einkavæðingu bankanna, þá sem síðasta ríkisstjórn stóð fyrir og Víglundur Þorsteinsson hefur nú sent þingmönnum gögn um, samhliða hinni fyrri. Þær tillögur voru báðar kveðnar niður af þáverandi ríkisstjórnarflokkum, þá virtist gagnsæið einhverra hluta vegna ekki jafn aðkallandi.

Í ljósi þessa vil ég spyrja hv. þm. Guðmund Steingrímsson, formann Bjartrar framtíðar, hvort hann sé sammála því að gagnsæi um alla þætti varðandi endurreisn bankakerfisins sé mikilvæg. Er hann sammála því að það sé jákvætt að þeir atburðir séu rannsakaðir betur í því skyni að öll gögn og atburðarás komi fram? Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að slík rannsókn geti varpað ljósi á málið og eytt tortryggni gagnvart því ferli sem þar átti sér stað?