144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við þingmenn höfum fengið fjöldapóst undirritaðan frá Landvernd um að hafna tillögu sem var lögð fram í atvinnuveganefnd í síðustu viku, breytingartillögu um að bæta fjórum virkjunarkostum við þann eina sem fyrir var til umfjöllunar í nefndinni, þ.e. Hvammsvirkjun. Það kemur fram í bréfinu sem við þingmenn höfum fengið að það sé gengið þvert gegn anda laganna um rammaáætlun og dregið úr möguleikum á friði um virkjanamál hér á landi og að ef tillagan verði samþykkt þýði það í raun að þingmenn geti lagt fram hvaða tillögu sem er án faglegrar umfjöllunar sérfræðinga rammaáætlunar. Það er spurt hvort við séum að kalla eftir þeim ófriði.

Við vitum að þegar hæstv. umhverfisráðherra, ekki sá sem nú situr heldur þar á undan, Sigurður Ingi Jóhannsson, lagði til átta virkjunarkosti og lagði að verkefnisstjórn að skila niðurstöðu sem fyrst, og verkefnisstjórn skilaði frá sér þessum eina kosti, Hvammsvirkjun, lagði til að hún færi í nýtingarflokk, kom það fram í máli manna í verkefnisstjórn að allt of fáir kostir væru undir til að vinna þessa vinnu. Núna hefur Orkustofnun lagt til 80 virkjunarkosti til umhverfisráðherra sem umhverfisráðherra leggur fyrir verkefnisstjórn að vinna úr.

Ég vil nota þetta tækifæri hér og geta þess að við, sú sem hér stendur og hv. þm. Róbert Marshall, höfum lagt fram frávísunartillögu, (Gripið fram í.) ég endurtek af því að fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra er hér að við höfum lagt fram frávísunartillögu á þessa breytingartillögu atvinnuveganefndar frá því í síðustu viku um að færa þessa fjóra kosti inn í tillöguna og senda til umsagnar. Við leggjum til að þessu máli verði vísað frá og að allir þeir kostir sem felast í (Forseti hringir.) þessari breytingartillögu fari aftur til verkefnisstjórnar í endurröðun.