144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Hér fer kurr um stjórnarandstöðuna. Ég vil byrja á því að óska þjóðinni til hamingju með það að í dag eru tvö ár síðan íslenska þjóðin sigraði Icesave-málið og sigraði ESA og Evrópusambandið fyrir dómstólum, þvert á það sem allir héldu fram að væri mögulegt.

Mig langar að blanda mér í umræðu sem snýr að þrotabúum föllnu bankanna, það er rétt hjá stjórnarandstöðunni. Mig langar að grípa niður í mjög merkilegt viðtal sem var í útvarpinu í gær við Heiðar Má Guðjónsson. Þar fjallar hann um þetta mál sem hefur verið talsvert í umræðunni síðustu daga, með leyfi virðulegs forseta:

„Ja, það sem er auðvitað er að hlutirnir hafa mismunandi verð eftir mismunandi tíma og heimurinn var mjög brothættur alveg þangað til í mars 2009. Þá fara loksins alþjóðlegir fjármálamarkaðir að batna. Þarna er verið að stofna banka í gríðarlegri óvissu og auðvitað þarf að vera borð fyrir báru. Síðan kemur ríkið inn, setur ef ég man rétt 380 milljarða hlutafé inn í nýju bankana, taka langmest af áhættunni, koma kerfinu í gang aftur en ákveða síðan að afhenda ávinninginn af því vegna þess að hann varð til vegna þess að þetta tókst. Það hefði alveg getað farið á hinn veginn en þetta tókst og það var ríkið og almenningur sem tók áhættuna og þeir ákváðu síðan að færa ávinninginn til þessara búa, sérstaklega Glitnis og Kaupþings, og hvers vegna voru menn að því?“

Þetta var viðtal í útvarpinu í gærmorgun við Heiðar Má Guðjónsson um þetta mál. Hann er ekki framsóknarmaður, hann er ekki þingmaður Framsóknarflokksins, hann er ekki forsætisráðherra, þetta er viðtal við einstakling úti í bæ.

Annar sem tjáir sig um þetta í bloggfærslu er Marinó G. Njálsson sem var á þessum tíma einn af aðalforsprökkum Hagsmunasamtaka heimilanna. Hann fer vel yfir þetta mál í bloggfærslu og fer yfir afleiðingarnar af þessu. Það hlýtur að vera (Gripið fram í.) vilji hjá okkur sem hér erum til að skoða þessi mál. Nú er þetta til skoðunar í (Forseti hringir.) stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það hlýtur að vera hagsmunamál fyrir okkur að skoða þessi mál út frá því sem meðal annars kemur fram í þessu viðtali. Ég trúi því ekki að stjórnarandstaðan sé mótfallin því hér á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í.)