144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[15:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu mjög og finnst mjög mikilvægt að gera ekki ágreining um þetta mál. Ég ætla ekki að gera neinn ágreining við hæstv. félagsmálaráðherra um hug hennar eða áætlanir um uppbyggingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar en vil þó segja að mér finnst miður að ekki sé komið inn í þingið frumvarp til laga um notendastýrða persónulega aðstoð. Þannig er það samt og ég skil orð hæstv. ráðherra þannig að það frumvarp muni koma.

Ég hvet ráðherrann til dáða í þessu og minni á allan efniviðinn sem hún hefur í höndunum til að koma á notendastýrðri persónulegri aðstoð á Íslandi sem meginvalkosti í þjónustu við fatlað fólk. Alþingi hefur talað í þessu máli. Það liggur fyrir einróma afstaða Alþingis til þingsályktunartillögu sem hér var lögð fram af mér sjálfum og fleirum um að við skyldum innleiða notendastýrða persónulega aðstoð. Það er í lögum um réttindi fatlaðs fólks.

Ég var formaður verkefnisstjórnar um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, stjórnaði þar einum 50, 60 fundum og veit vel að þetta er ekki einfalt mál. Þar var gerð handbók um notendastýrða persónulega aðstoð í miklu samráði við fatlað fólk, sveitarfélög og aðra. Það var ekki þrautalaust en hún liggur fyrir og er mikill efniviður. Það voru unnar leiðbeinandi reglur um notendastýrða persónulega aðstoð. Það voru gerðir 50 tilraunasamningar um notendastýrða persónulega aðstoð. Eitt það magnaðasta sem ég hef séð í pólitík hefur verið að sjá fólk sem hefur ekki notið sjálfstæðs lífs öðlast það með samningi um notendastýrða persónulega aðstoð. Það er kannski mesta hvatningin sem ég vona að hæstv. ráðherra geri sér mat úr í starfinu fram undan.

Svo þurfum við öll að minna okkur á að burt séð frá kostnaði og ábatagreiningu, sem ég held að komi vel út fyrir notendastýrða persónulega aðstoð, er þetta fyrst og fremst mannréttindamál og snýst um að tryggja fólki frelsi (Forseti hringir.) og rétt til sjálfsbjargar.