144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[16:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Af því að hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir minntist í svari sínu áðan á fyrirspurn mína um innleiðingu á NPA langar mig að benda á að það er ekki bara okkur í þinginu sem var farið að lengja eftir þessu þingmáli heldur voru sjálfir notendur þjónustunnar orðnir ansi langeygir í haust eftir að fá að vita um framhald þjónustunnar. Þó að ég hafi orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum með það að hæstv. ráðherra ætlaði ekki að stíga stærri skref núna en að framlengja samkomulagið um tvö ár held ég hins vegar að ýmsir sem þegar eru komnir inn í kerfið hafi andað talsvert léttar. Mér finnst það svolítið alvarlegt í þessu máli að fullt af fólki hafi verið mjög óöruggt um stöðu sína og hver hún yrði eftir áramótin.

Svo langar mig að taka undir það sem hér hefur verið sagt, að hér sé um mikilvægt mannréttindamál að ræða. Það er svo sannarlega rétt en það er líka svo mikilvægt að við skoðum þetta ekki bara sem eitthvert afmarkað mál. Vegna þess að hæstv. ráðherra minntist áðan á húsnæðismálin verð ég að nefna í þessu samhengi byggingarreglugerð en ekki alls fyrir löngu var einmitt dregið úr kröfum um aðgengileika íbúða og fjölda þeirra sem aftur hefur þau áhrif að hér verður byggt húsnæði sem verður óaðgengilegt fyrir fatlað fólk sem (Forseti hringir.) skerðir svo möguleika þess til að búa sjálfstætt og heimsækja vini og ættingja.