144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

framtíðarfyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

[16:14]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Það sem ég mundi líka vilja fá að óska í lok hennar er að við ræðum meira um málefni fatlaðs fólks. Þetta er sá málaflokkur sem kom mér kannski mest á óvart þegar ég kom í velferðarráðuneytið, það að sjá hversu ótrúlega fjölbreyttir einstaklingarnir eru þegar við tölum um þennan hóp, „fatlað fólk“, hversu margvíslegar þarfirnar eru, kröfurnar sem eru gerðar til hins opinbera, til sveitarfélaganna, og líka hversu margt gott við höfum verið að gera. Síðasta ríkisstjórn má svo sannarlega eiga það að hún gerði margt gott. Ég legg líka áherslu á það að stjórnarandstaðan studdi mjög margt af því sem þar var lagt til. Þetta kostar hins vegar fjármuni.

Við erum líka á sama tíma að færa málaflokkinn yfir til annars stjórnsýslustigs þannig að ábyrgðin er hjá sveitarfélögunum. Í mínum huga er einmitt mjög mikilvægt að þau skref sem við tökum séu tekin í mjög góðu samráði við sveitarfélögin, þau sem bera ábyrgð á málaflokknum. Það skal alveg viðurkennt að það hefur vottað fyrir ákveðinni tortryggni gagnvart NPA hjá einstaka sveitarstjórnarmönnum í einstaka sveitarfélögum. Það dróst að taka upp fyrstu samningana. Ég tek undir það sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði og bendi líka á að stærstu sveitarfélögunum, þeim sem hafa mest áhrif, t.d. í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, er stjórnað af meðal annars sveitarstjórnarmönnum úr Bjartri framtíð, Samfylkingunni og Vinstri grænum sem geta haft mjög mikið um það að segja hvernig þróunin verður í þessum málaflokki.

Vegna þess að sveitarfélögin borga 80% af kostnaðinum við NPA er það líka sveitarstjórnarmanna að taka ákvörðun um hvort við viljum bjóða upp á þessa þjónustu eða ekki. Ríkið leggur fram 20% þannig að það var (Forseti hringir.) ekkert sem sagði að það ætti að hætta með verkefnið ef það var raunverulegur áhugi hjá sveitarstjórnarmönnum að bjóða upp á þetta. (Forseti hringir.) Við munum vinna áfram að NPA. Það er gott að finna stuðninginn hér, en opnum (Forseti hringir.) líka umræðuna um þennan frábæra (Forseti hringir.) og fjölbreytta málaflokk í þinginu.