144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Markmið frumvarpsins er að afnema þann greinarmun sem gerður er á fjölmiðlum þegar kemur að auglýsingum lausasölulyfja. Í 1. mgr. 16. gr. gildandi laga er heimilt að kynna og auglýsa lausasölulyf með þeirri undantekningu að óheimilt er að auglýsa í sjónvarpi. Af hálfu Samkeppniseftirlitsins og Samtaka verslunar og þjónustu, svo dæmi séu nefnd, hefur verið bent á að ákvæði sem bannar að auglýsa lausasölulyf í sjónvarpi sé ekki til þess fallið að auka samkeppni í lyfsölu, enn fremur sé bannið ekki í samræmi við það sem almennt gildi í nágrannalöndunum. Með frumvarpinu er fallist á þau sjónarmið og lagt til að banni við auglýsingum á lausasölulyfjum í sjónvarpi verði aflétt.

Jafnframt er í 1. gr. frumvarpsins lögð til sú breyting á 14. gr. laganna að ekki verði lengur skylt að birta upplýsingar um pakkningastærðir, verð, stærð skammta og helstu atriði önnur um notkun og aukaverkanir í lyfjaauglýsingum. Þessar upplýsingar geta verið allviðamiklar, sérstaklega þær sem fjalla um aukaverkanir lyfja. Það getur því verið erfiðleikum háð að koma þeim til skila í auglýsingum. Umræddar upplýsingar eru eigi að síður mikilvægar og er því lagt til að séu þær ekki tilgreindar í lyfjaauglýsingu beri þá að birta tilvísun á fylgiseðli með lyfinu, en slíkir fylgiseðlar eru aðgengilegir á vef Lyfjastofnunar.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. velferðarnefndar til 2. umr.