144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda hvatninguna.

Ég er þeirrar gerðar að ég hefði viljað fyrst af öllu láta á það reyna hvort þingið tæki ekki fagnandi þessari örlitlu breytingu í þá veru að jafna aðstöðu fjölmiðla til þess að koma þeim upplýsingum á framfæri sem þeir sem sýsla með lyfin vilja gera neytendum grein fyrir. Ég þykist vita án þess að ég geti farið út í það að fleiri þættir, m.a. þeir sem lúta sérstaklega að læknum og lækningastarfsemi, hljóti að koma til umræðu á milli fagfélagsins og stjórnvalda. Það kann vel að vera, og nú hef ég þann fyrirvara á því sem ég segi, að það séu einhverjar siðareglur eða annað því um líkt hjá tilteknum heilbrigðisstéttum sem kunna að koma í veg fyrir að þær auglýsi starfsemi sína með þeim hætti sem hér er rætt um. Ég bendi þó á að það eru ákveðnir þættir sem tengjast heilbrigðum lífsháttum sem eru komnir inn á síðustu árum og vakin hefur verið athygli á með auglýsingum, en bein lækningastarfsemi eins og t.d. tannlækningar eða sérgreinalæknisþjónusta, er ekki heimil í auglýsingum. Ég kann ekki á því nákvæmar skýringar hvers vegna svo er.

En til að svara lokaspurningu hv. þingmanns þá er ég ekki mjög íhaldssamur í þessum efnum. Ég viðurkenni að ég hef ekki farið út fyrir þann ramma sem frumvarpið tekur til í skoðun á þeim þáttum sem hann gerir að umtalsefni.