144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið svo langt sem það nær og vil lýsa því yfir að ég sem einn af 63 hv. þingmönnum mun styðja þessa breytingu þótt hún sé lítil og skrefið smátt. Málið er að heilbrigðisþjónustan er orðin svo margslungin og margflókin að ég er viss um að fjöldi borgara í landinu veit ekki um og þekkir ekki þá þjónustu sem honum gæti staðið til boða vegna þess að það má ekki auglýsa hana. Þroskaþjálfar mega ekki auglýsa. Það má enginn auglýsa. Kannski er einhver með barn sem á erfitt með að tala og hvert snýr maður sér? Hvar eru auglýsingarnar? Hvar eru upplýsingarnar? Þær vantar gjörsamlega.

Ég vil hvetja hv. nefnd sem fær málið til umsagnar að víkka frumvarpið allverulega og hætta þessum fordómum gagnvart auglýsingum. Auglýsingar eru ekki af hinu slæma. Þó að það geti náttúrlega verið oft í þeim mikill áróður, þá eru auglýsingar fyrst og fremst upplýsandi.