144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, með síðari breytingum, og það er um auglýsingar. Markmið frumvarpsins er að afnema þann greinarmun sem gerður er á fjölmiðlum þegar kemur að auglýsingum og er þá einungis átt við lausasölulyf. Mér finnst rétt að velta því upp hvort við séum kannski að fara í ranga átt. Á yfir höfuð að auglýsa lyf? Þá skiptir svo sem engu máli í hvaða miðli er verið að gera það.

Það sem ég hef svolitlar áhyggjur af er að með þessu sé verið að veita markaðnum aðgang að fólki, mögulega á kostnað neytenda og neytendaverndar. Nafn lyfs og notkun þess fær greiðan aðgang að fólki en dýpra verður á upplýsingum um mögulega fylgikvilla sem geta verið miklir og alvarlegir. Í athugasemdum við lagafrumvarpið er fjallað um að ekki þurfi ekki að birta fylgiseðla en þeir verði aðgengilegir eða megi finna á vef Lyfjastofnunar. Ég velti fyrir mér þessu aukaskrefi sem þarna verður til. Það er verið að halda að fólki vöru en ekki öllum upplýsingum um hana. Ég held að við vitum það öll að jafnvel þeim lyfjum sem við getum keypt í lausasölu og án tilvísunar frá lækni geta fylgt miklar og alvarlegar aukaverkanir. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt í meðferð nefndarinnar á þessu máli að við fáum fram sjónarmið Neytendasamtakanna og landlæknisembættisins, bara svo tveir aðilar séu nefndir, um hvaða áhrif það að auglýsa og með því að bæta við auglýsingum sem verða leyfðar í sjónvarpi hafi á neytendavernd og þar með í raun heilbrigði þeirra sem ætla að nota lyf. Eins frábær og lyf geta verið og eru þá þurfum við auðvitað að fara varlega í sakirnar því að röng notkun á þeim er gríðarlega alvarlegt mál. Þess vegna held ég að við þurfum að skoða þetta mál rosalega vel. Það er ýmislegt í þessu sem hringir viðvörunarbjöllum hjá mér vegna þess að eins og ég hef sagt áður, mér finnst hér verið að veita markaðnum mikinn aðgang á kostnað neytenda.