144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún er að mörgu leyti eins og við var að búast. Þetta eru spurningar sem maður hefur verið að velta fyrir sér varðandi þetta mál, eðlilega. Ástæða þess að þetta mál kemur fram nú, svo að ég svari því strax, er fyrst og fremst sú að kerfið hefur kastað þessu á milli sín í allnokkur ár. Í mínum huga er þetta tiltölulega einföld lítil breyting. Ég hef ekki séð neinar forsendur fyrir því að gera á þennan hátt upp á milli fjölmiðlanna og hef ekki fengið nein rök fyrir því hvers vegna taka á einn fjölmiðil út úr, eina leið til að koma upplýsingum á framfæri, umfram annan og banna ljósvakamiðlum eða sjónvarpi að auglýsa lausasölulyfin, ég hef ekki fengið neinar skýringar á því.

Það er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ekki sé farið í heildarendurskoðun á lyfjalögum eða því um líku, það verk er í undirbúningi. Ég geri ráð fyrir því að á árinu 2016 munum við koma fram með frumvarp um ný lyfjalög. Ég taldi einfaldlega ekki rétt að bíða eftir þeirri vinnu með þá breytingu sem hér um ræðir.

Ég vil vekja athygli á því, í ljósi umræðunnar um það hvaða upplýsingar gætu komið fram í auglýsingum um lyf, að ef þetta gengur fram með þessum hætti verður áfram skylt að tilgreina í lyfjaauglýsingu bæði nafn framleiðanda og heiti lyfs ásamt virkum efnum, helstu ábendingum og frábendingum sem varða notkun á því lyfi sem um ræðir. Ég dreg þetta í raun saman þannig að ég tel að núverandi ákvæði í lögum um þessar auglýsingar brjóti einfaldlega á rétti neytenda til að fá upplýsingar ef ég tek stöðuna þeim megin.

Ég hef ekki fundið nein rök fyrir því að takmarka þetta þarna. Á meðan við leyfum auglýsingar á lausasölulyfjunum tel ég einboðið að við leyfum það í öllum fjölmiðlum. Það er ástæðan fyrir flutningi þessa máls, þetta er fyrst og fremst til að takmarka ekki það svigrúm sem þeir sem flytja þetta inn og vilja selja hafa til að auglýsa sína vöru, koma upplýsingum á framfæri, og ekki síður fyrir neytendur til þess að nálgast þær hinar sömu upplýsingar.

Ég ítreka þakkir fyrir þessa umræðu og vænti þess að málið gangi til nefndar og hún afli umsagna frá hinum ólíku hagsmunaaðilum þessu tengdu, neytendum sömuleiðis.

Ég vil þó nefna það hér rétt í lokin, til upplýsingar fyrir þá sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og vilja fylgjast með þessu máli, að Lyfjastofnun hefur eftirlit með auglýsingum lausasölulyfja og innihaldi þeirra. Þannig að fyrir hendi er virkt eftirlit með þeim auglýsingum sem þegar eru leyfðar.