144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

425. mál
[16:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn (tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) og fella inn í samninginn reglugerð EB nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað, framselda reglugerð ESB nr. 363/2012 um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir, eins og kveðið er á um í reglugerð EB nr. 995/2010, og framkvæmdarreglugerð ESB nr. 607/2012 um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð EB nr. 995/2010.

Með gerðunum er reynt að stemma stigu við ólöglegu skógarhöggi og tengdum viðskiptum með því að lágmarka áhættuna á því að timbur sem er ólöglega höggvið eða vörur úr slíku timbri séu settar á markað innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þannig eru settar skorður við markaðssetningu á timbri og vörum úr timbri sem hefur verið höggvið ólöglega. Þá er aðilum sem selja timbur og timburvörur gert að tryggja rekjanleika vörunnar. Jafnframt er í gerðunum kveðið á um sérstakt aðgátskerfi fyrir rekstraraðila sem setja timbur og vörur úr timbri í fyrsta sinn á markað, viðurkenningar á vöktunarstofnunum, sem geta viðhaldið og metið aðgátskerfin, og eftirlit af hálfu lögbærra yfirvalda.

Innleiðing reglugerðar EB nr. 995/2010 kallar á lagastoð og stefnt er því að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi. Reglurnar verða í kjölfarið innleiddar í formi reglugerðar með stoð í þeim lögum.

Reglurnar munu helst hafa áhrif á framleiðendur timburs og timburvara, innflytjendur, dreifendur og aðra rekstraraðila sem koma að sölu timburs og timburvara auk neytenda sem munu verða betur upplýstir um uppruna varanna sem þeir kaupa. Einnig munu reglurnar hafa í för með sér aukin verkefni fyrir hið opinbera.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvæðinu felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar. Ég vil, herra forseti, koma því jafnframt hér á framfæri að einhverjum kann að finnast að þessi gerð eigi nú ekki mikið við Ísland varðandi skógarhögg og annað, en ég vil taka það hér fram að þetta er mjög mikilvægt mál fyrir Noreg og Norðmenn sem eru með býsna mikinn iðnað þegar kemur að skógarhöggi og þeir hafa því lagt mikla áherslu á að þetta mál nái hér fram að ganga eins fljótt og verða má en að sjálfsögðu í samræmi við allar okkar reglur og lög varðandi meðferð þessara mála.