144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

425. mál
[16:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans fyrir málinu og verð nú að segja að mér líst betur á þetta þingmál en mörg önnur sem hæstv. ráðherra hefur boðað á þessum þingvetri og þá sérstaklega eitt þeirra.

Ég vil í byrjun spyrja ráðherrann um hversu mikið þetta varðar okkur, hvort hér hafi orðið vart ólöglegs skógarhöggs eða sölu á afurðum úr því, hvort þetta sé eitthvert vandamál sem hefur komið upp hér. Síðan aðeins um upprunamerkingarnar, hvort þær lúti að því í hvaða landi þetta er höggvið eða hvort það tilgreini tiltekin svæði sem það kemur frá eða hvort þetta er einhvers konar „beint frá býli“-hugmynd.

Ég vil þó aðallega nota tækifærið hér við þessa umræðu og spyrja ráðherrann út í þá dóma sem felldir voru gegn íslenska ríkinu hjá ESA í gær eða fyrradag. Það vakti nokkra eftirtekt að þar féllu einir fimm dómar að ég hygg vegna slakrar innleiðingar á evrópskum gerðum hér í okkar rétti, ef ég hef skilið fréttaflutninginn rétt. Ég vil spyrja ráðherrann sem gæslumann samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessum dómum og hvort við séum farin að standa okkur miklu verr við það að halda samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en hinar þjóðirnar gera.