144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

ákvörðun EFS-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

425. mál
[16:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en vil bara árétta þá spurningu hvort íslensk stjórnvöld fái á sig miklu fleiri dóma fyrir vanefndir á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en hin löndin, þ.e. Liechtenstein og Noregur. Fáum við á okkur miklu fleiri dóma af þessu tilefni en þau, þ.e. gerum við mun verr en þau í því að efna samningsskyldur okkar? Þarf þá ekki að taka til einhverra ráðstafana? Hefur ráðherra einhverjar hugmyndir um með hvaða hætti megi bæta þar úr?

Hins vegar vegna þessara innleiðinga almennt og vegna þess sérstaklega að við erum að fjalla hér um enn eitt málið sem kemur í raun og veru eyríki okkar ósköp lítið við — við höfum ekki átt við þann vanda að stríða, eins og ráðherrann réttilega nefnir, sem er ólöglegt skógarhögg og er það sem þetta mál snýst fyrst og fremst um — er ekki löngu orðið ljóst að það valdaframsal sem fólst í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sé nú uppsafnað með öllum þeim fjölmörgu lagabreytingum sem af því hefur hlotist og orðið framsal valds sem er langt út fyrir þær heimildir sem stjórnarskráin setur löggjafanum? Er ekki löngu orðið nauðsynlegt að fá samþykki fyrir breytingum á stjórnarskrá sem heimilar eitthvert slíkt valdaframsal til þess að geta haldið áfram að rækja þennan samning helst betur en við höfum gert?