144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrirspurnina. Það er mjög gott að hún taki upp skilyrðingar í atvinnuleysistryggingakerfinu því að það er allt annað kerfi. Það er kerfi sem er tengt vinnumarkaðsréttindum. Þar er skilyrði að viðkomandi sé virkur í atvinnuleit, en lög um félagsþjónustu gegna allt öðru hlutverki og eru lægsta öryggisnet hvað varðar fjárhagsaðstoð til þess að tryggja öryggi fólks og tengjast ekkert vinnumarkaðsréttindum.

Samfylkingarfólk í sveitarfélögum víða um landið beitir ýmsum aðferðum. Ég tala hér sem löggjafi gegn því að skilyrðingar séu leið til þess að koma fólki í svokallaða virkni. Núna er í gangi heildarendurskoðun á lögum um félagsþjónustu. Ég mundi mæla með því að ráðherra fæli þeim hópi að fara yfir hvað sveitarfélögin eru að gera í dag varðandi fjárhagsaðstoð, að fara einmitt yfir skilyrðingarnar sem ekki allir eru vissir um að standist lög og kanna hvort ekki sé ástæða til að grípa inn í og hvað beri að gera í þessum efnum. Ég held að það sé eðlilegt verkefni ef fólk vill hafa áhyggjur af þessu.

Ég endurtek og bendi á að þunginn í fjárhagsaðstoð nú er í algjörlega eðlilegum takti við þann þunga sem sést í kjölfar efnahagslægða á Íslandi.