144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:02]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og verð að segja að mér finnst að mörgu leyti þingmaðurinn ekki vera jafn langt frá mér og kannski mætti halda miðað við hluta af ræðu þingmannsins.

Þess vegna held ég að svo mikilvægt sé fyrir nefndina að fara mjög vel yfir hverja einustu setningu í 2. gr., ég fór í gegnum hana áðan, og að þingmaðurinn svari því einfaldlega: Er þingmaðurinn ósammála því að óheimilt verði að skilyrða fjárhagsaðstoð til annars en umsækjanda sem metinn er vinnufær að hluta eða öllu leyti? Ég gat ekki heyrt það í ræðu þingmannsins, en það væri ágætt að heyra það.

Er þingmaðurinn ósammála því að óheimilt verði að skerða aðstoð sem sérstaklega er ætluð börnum samkvæmt reglum sveitarstjórnar? Er þingmaðurinn ósammála því að þegar verið er að horfa á mat á vinnufærni einstaklings verði byggt á samræmdu faglegu mati á færni til vinnu? Er þingmaðurinn ósammála því að þetta skuli vera unnið í samvinnu við umsækjanda og samhliða gerð einstaklingsbundinnar áætlunar um framvindu þar sem sest er niður með viðkomandi, að tékki sé ekki bara sendur eða fjárhagsaðstoðin rétt, heldur að raunverulega sé sest niður með fólki og einstaklingsbundin áætlun gerð með viðkomandi?

Telur hv. þingmaður að þau ákvæði um hvað virk atvinnuleit er sem skilyrðið gengur raunar út á sé eitthvað sem fólk ætti ekki að ráða við ef það væri búið að fara í gegnum svona faglegt mat:

Að hafa frumkvæði að starfsleit?

Að vera reiðubúið að ráða sig í hvert það starf sem atvinnuleitandi er fær um að sinna samkvæmt mati á vinnufærni og greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum og þar með telst hann vera reiðubúinn að mæta í atvinnuviðtöl?

Að sækja um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, samanber 7. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir?

Að taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, þar með talið námsúrræðum?

Að veita félagsþjónustu sveitarfélaga eða eftir atvikum Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur viðkomandi á að fá starf við hæfi?

Síðan mundi ég líka gjarnan vilja heyra frá þingmanninum hvort hún hafi komið á framfæri skoðunum sínum við fulltrúa Vinstri grænna í (Forseti hringir.) Reykjavík og í Hafnarfirði þar sem eru nú þegar (Forseti hringir.) skilyrði.