144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég byrji á síðustu spurningunni sem var beint til mín því að hún er einföldust. Já, ég hef talað fyrir því að mér finnist ekki rétt að skilyrða fjárhagsaðstoð.

Það voru ansi margir liðir sem hæstv. ráðherra spurði mig um hvort ég væri ósammála, en kannski rétt eins og hv. þingmaður bendir á að svara þeim. Það er ekki þar með sagt að ég vilji ekki gera neitt til þess að efla atvinnuleitendur eða fólk sem einhverra hluta vegna er ekki virkt á vinnumarkaði í því að leita sér starfa. Að sjálfsögðu á að gera það, það eiga að vera alls konar úrræði í boði. Mér finnst þá miklu nær að reyna að finna einhvers konar hvatakerfi sem tekur ekki grunnframfærsluna af fólki. (Gripið fram í.) Þetta er nefnilega ekki hvatakerfi, þetta er hegningarkerfi að mínu viti vegna þess að hér er verið að taka grunnframfærsluna af fólki. Ég er þeirrar skoðunar að hana eigi ekki að taka af fólki heldur eigi að finna aðrar leiðir til þess að virkja fólk. Og já, við eigum svo sannarlega að gera það, þ.e. að virkja fólk.

Að langt sé á milli okkar, mín og hæstv. ráðherra í þessu máli, ég held við séum sammála um ýmislegt, svona félagslegt, en það er ein gríðarlega stór gjá á milli okkar þegar kemur að því hvort eigi yfir höfuð að (Forseti hringir.) skilyrða fjárhagsaðstoð.