144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:06]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að brýnt sé í meðferð þingsins að fá einmitt þá sem stóðu til dæmis að því að skipuleggja Áfram-verkefnið í Hafnarfirði og heyra hvernig menn hafa sett það upp. Ég held einnig að mikilvægt sé, því að náin tengsl eru við þann einstakling sem skipulagði Liðstyrksverkefnið, að fá upplýsingar um það.

Það sem við erum hér að mínu mati að taka skrefið inn í er að uppfæra löggjöfina í samræmi við þær jákvæðu breytingar sem eru að verða á félagsþjónustu sveitarfélaganna, þar sem það er einmitt nákvæmlega ekki þannig að fólk fái bara einhvern fjárhagsstyrk, heldur er unnið með einstaklingnum. Horft er á hver er staðan hjá þér. Það sé gerð, eins og lagt er til í frumvarpinu, einstaklingsbundin áætlun til þess að hjálpa viðkomandi. Ertu vinnufær eða ekki? Ef fólk er ekki vinnufært, það leitar eftir fjárhagsaðstoð vegna annarra aðstæðna, eins og kom til dæmis upp í Liðstyrksverkefninu, þar var talað um að allt að fjórðungur væri í raun og veru ekki vinnufær vegna áfengisvanda, fíkniefnavanda eða annars verulegs vanda. En það kom þá upp á yfirborðið vegna þess að farið var að vinna með fólki en ekki eins og kannski var hér áður fyrir hrun í atvinnuleysistryggingakerfinu og líka í félagsþjónustukerfinu að ekki var sest niður með einstaklingnum og sagt hvað það væri sem við gætum gert til þess að hjálpa viðkomandi.

Það er það sem ég held að við hv. þingmaður séum sammála um. Ég vona að hv. þingmaður sé tilbúin að horfa með jákvæðni á frumvarpið sem felur í sér að ramma þessa hugsun af. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að þetta er heimildarákvæði.

En ef menn ákveða það að vera með skilyrðingar í sínum reglum geta þeir ekki farið umfram þetta, þá er ekki heimilt að taka til dæmis alla aðstoðina af þeim sem leita (Forseti hringir.) eftir fjárhagsaðstoð.