144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:08]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, sem betur fer er ekki verið að leggja til að taka alla fjárhagsaðstoðina af fólki. Og þó velti ég því fyrir mér vegna þess að þetta er svo rosalega lítil upphæð sem um er að ræða að það væri svona pólitískt séð alla vega að sumu leyti auðveldara kannski að tækla það þannig, (Gripið fram í.) en það sem ég ætlaði að segja er að þar með erum við auðvitað að gera stöðu einstaklingsins enn verri. Þess vegna er það ekki góð leið, að sjálfsögðu ekki.

Við eigum að gera einstaklingsbundna áætlun því að ég held að það sé einmitt það sem fólk sem hefur einhverra hluta vegna verið lengi í vanvirkni þarf á að halda. En hafi fólk ekki peninga til lágmarksframfærslu og hálf fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er svo sannarlega miklu minna en það sem þarf til lágmarksframfærslu, þá verða sporin svo þung til að fara hreinlega út í það að taka þátt í virkniskilyrðingunni sem hér er verið að setja. (Gripið fram í: … hafnar …) Ef fólk hafnar því að taka aðstoðina … (Gripið fram í: Hvers lags eiginlega er þetta?) Já, en fólk er í þeirri aðstöðu að það er svo erfitt að taka þau spor að fara út í einhverja virkni. Þess vegna eigum við ekki að taka af því aðstoðina og ætla þannig að pína það út í virkni. Ég held að svona virki þetta ekki. Ég held við ættum að kalla eftir mjög greinargóðum upplýsingum um það hvað það er sem virkar til þess að fá fólk til virkni í samfélaginu því það er auðvitað það sem við viljum. Með skilyrta fjárhagsaðstoð? Ég held ekki.