144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir ágæta ræðu. Ég er engan veginn sammála því sem hún sagði, en þakka samt.

Nú er það þannig að lágmarkslaun hjá VR og Einingu/Iðju eru um 214.000. Af því borga menn iðgjald í lífeyrissjóð 4% og 1% í stéttarfélag, þannig að það eru rétt rúmlega 200.00 eftir. Það sem Reykjavíkurborg er að bjóða í dag án skilyrða eru 175.000. Þarna geta menn eiginlega valið um það hvort þeir vilji standa í þeim kostnaði að sækja vinnu fyrir 25 þús. kr. á mánuði.

Ég spyr hv. þingmann: Getur verið að fólk sem getur unnið eigi bara að þiggja fjárhagsaðstoð frá öllum hinum sem vinna? Því að þetta er allt borgað af skattgreiðendum, af útsvarsgreiðendum. Getur það verið að hv. þingmaður vilji hafa það þannig að fólk sem getur unnið eigi að fá 175.000 kr. á mánuði án skilyrða?

Mér hefur borist til eyrna, frú forseti, að það sé svört atvinnustarfsemi á Íslandi. Það eru ýmsir sem vinna svart. Það er ekki einleikið þegar farið er að tala um að virkja fólk þá hættir það allt í einu að koma. Þetta þarf líka að taka inn í myndina. Af því að svört atvinnustarfsemi fer ágætlega saman við fjárhagsaðstoð þar sem ekki er krafist vinnuframlags eða virkni.

Það er síðan spurningin um kenningar eða rannsóknir sem hafa sýnt að fólk sem er fimm mánuði frá vinnumarkaði af ýmsum ástæðum, það vinnur aldrei meir, 80% af þeim vinna aldrei meir. Er hv. þingmanni kunnugt um þetta? Og vill hann samt sem áður ekki gera neitt í því varðandi þá (Forseti hringir.) sem eru að fá fjárhagsaðstoð?