144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði um að standa í þeim kostnaði að þiggja vinnu og benti réttilega á það hversu lág sum laun eru. Mitt einfalda svar við þeirri ábendingu er það að að sjálfsögðu þurfum við að hækka lágmarkslaunin til að fólk geti lifað almennilega af laununum sínum.

Já, mér er fyllilega kunnugt um að það þarf ekki að vera utan vinnumarkaðar í langan tíma til þess að líkurnar á því að fólk vinni aldrei aftur verði gríðarlega miklar. Þess vegna þurfum við að hafa mjög virk úrræði fyrir fólk sem missir vinnuna á þessum fimm mánuðum en síðast en ekki síst þegar þú ert kominn yfir þennan hættulega tíma.

Ég get alveg lýst því sem persónulegri reynslu minni hve mikið átak það er að fara út á vinnumarkaðinn eftir að hafa verið lengi frá honum. Það er hægara sagt en gert. Það þekki ég og veit. Ég held að ef ég hefði verið í þeirri stöðu að búa langt undir öllum fátæktarmörkum þá hefði það reynst mér enn erfiðara.

Til að taka þátt í samfélaginu, til dæmis á vinnumarkaði, þarf að vera sómasamlega klæddur. Það kostar peninga. Það kostar að ætla að fara og gera eitthvað fyrir eigin atbeina, (Forseti hringir.) það eigum við ekki að taka af fólki með því að taka af því alla fjárhagsaðstoð.