144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að reyna að skilja hv. þingmann og reyna að átta mig á því að kannski sé ekkert voðalega langt á milli okkar eða milli hv. þingmanns og hæstv. ráðherra. Hún vill sem sagt fá virkni. Hún vill ekki skilja fólkið eftir eitt.

Bíddu við, er það ekki einmitt það sem frumvarpið segir? Að þeir sem eru vinnufærir — við erum að tala um þá, við erum ekki að tala um þá sem eru óvinnufærir. Við erum að tala um þá sem geta unnið og af hverju skyldu þeir þá ekki vinna fyrir sinni framfærslu eins og aðrir? Einmitt það að skilja þá eftir og gera ekki neitt, borga þeim bara fjárhagsaðstoð án skilyrða, bara tékki í hverjum mánuði, ungt fólk, kannski 19 ára, sem nennir ekki að vinna, frú forseti, ég þori varla að segja það, eða er að vinna svart.

Er ekki ágætt að tala það til og benda því á að það eigi að vinna eins og aðrir í þjóðfélaginu sem geta unnið?