144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hæstv. ráðherra talar aftur um að það sé stutt á milli okkar og vissulega viljum við öll aðstoða fólk til virkni, þetta snýst ekki um það, þetta snýst um skilyrðinguna. Í þessu frumvarpi snýst þetta um skilyrðinguna.

Ég er ekki endilega sammála Hafnarfjarðarbæ eða Reykjavíkurborg í þessu samhengi. Það er eitt að geta uppfyllt einhver skilyrði og geta merkt við í reiti, hvort maður telst vinnufær. Það er annað að ef maður er vinnufær og þiggur ekki tiltekna vinnu þá sé maður skertur og það um allt að helming.

Ég velti því líka fyrir mér, af því að hæstv. ráðherra kom hér inn á virkniúrræði og Vinnumálastofnun og annað því um líkt, þeir eiga ekki lengur rétt til atvinnuleysisbóta og eru að koma til sveitarfélaganna, hversu hátt hlutfall er það af því fólki sem hefur þá, af því að hún talaði um hve úrræðin hefðu virkað vel, sem fór í gegnum þetta hjá Vinnumálastofnun? Við erum að tala um að auka samstarfið við Vinnumálastofnun í því að reyna að ná fólki til virkni.

Nú eru til úrræði. Hversu margir hafa farið í gegnum þau án þess að það hafi gengið? Eða gátu þeir neitað? Samkvæmt lögum hafa þeir ekki átt að geta gert það, af því að þú þarft að vera í virkri atvinnuleit. Ég velti því fyrir mér, ef fólk hefur ekki verið sett í einhver tiltekin úrræði þar eða ef ekki hefur einhverra hluta vegna tekist að virkja það, af hverju það ætti að verða öðruvísi hjá sveitarfélögunum? Hvað er það sem breytist?

Eins og ég segi, mér finnst þetta snúast um aðferðafræðina. Við viljum öll aðstoða fólk til virkni en þetta snýst um skerðingar, það er málið.