144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni sem ég lagði upp með, þ.e. hvort hún teldi að hægt væri að koma fólki til virkni án þess að þessar skerðingar þyrftu að koma til. (Gripið fram í.)

Að sjálfsögðu skilar það eflaust ekki öllum til virkni, ég geri ekki ráð fyrir því, ekki frekar en þetta gerir það, það skilar ekki öllum til virkni. Einhverjir detta eflaust út, eins og hér hefur komið fram, vegna annarra aðstæðna eins og getið er um í 4. gr.

En það breytir ekki þessum neikvæðu formerkjum. Ég ætla fólki ekki að fara inn á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga vegna þess að það nenni ekki að vinna. Ég vil ekki trúa því almennt upp á fólk að það geri það. Þess vegna finnst mér þau neikvæðu formerki sem hér eru sett ekki vera af hinu góða og ég tel að skilyrðing af þessu tagi sé ekki til þess að laða það fram í fólki (Forseti hringir.) að það fari út á vinnumarkaðinn aftur. Að sjálfsögðu eru svartir sauðir í þessu eins og öllu öðru.(Forseti hringir.) Hvar eru þeir ekki? Þeir eru hér á þingi líka.